Átök á götum Madridar

Þúsundir hafa mótmælt í Madrid í dag.
Þúsundir hafa mótmælt í Madrid í dag. Reuters

Þúsundir manna hafa í dag tekið þátt í mótmælagöngu í Madrid á Spáni til að mótmæla atvinnuleysi og viðbrögðum stjórnvalda við efnahagserfiðleikum. A.m.k. 20 manns eru sárir eftir átök við lögreglu.

Gríðarlegt atvinnuleysi er meðal ungs fólks á Spáni og finnst mörgum ríkisstjórn landsins úrræðalaus gagnvart vandanum.

Mótmælendur gengu að innanríkisráðuneytinu til að mótmæla ákvörðun þess að loka Puerta del Sol, aðaltorgi borgarinnar. Mótmælendur saka innanríkisráðherra landsins um að misnota vald sitt.

Átök brutust út milli hluta mótmælenda og lögreglu og eru a.m.k. 20 sárir eftir átökin. Sjö af þeim eru lögreglumenn. Sjónvarpsstöðvar hafa í kvöld sýnt fólk sem er alblóðugt í framan.

Þetta eru alvarlegustu átök milli mótmælenda og lögreglu síðan mótmælin hófust í maí. Þegar þau hófust vísuðu margir mótmælendur til búsáhaldabyltingarinnar á Íslandi. Mótmælendahreyfingin kallar sig 15M með vísan til þess að hún hófst 15. maí þegar skipulögð mótmæli fóru fram í 58 borgum Spánar.

Mótmælendur hafa í þrjá daga reynt að komast inn á torgið, en lögregla hefur stöðvað þá.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka