Hrekja frumbyggja að heiman

Frumbyggjar í Ástralíu.
Frumbyggjar í Ástralíu. TIM WIMBORNE

Stefna stjórnvalda veldur því að ástralskir frumbyggjar eru hraktir af löndum sínum þrátt fyrir að þeir myndu lifa lengur ef þeir yrðu um kyrrt þar. Mannréttindasamtökin Amnesty International halda þessu fram.

Rannsökuðu samtökin litla hópa í eyðimörkum Ástralíu og komust að þeirri niðurstöðu að þeim sem kusu að búa á löndum forfeðra sinna var í raun neitað um þjónustu eins og félagslegar íbúðir vegna áherslu stjórnvalda á stærri borgir.

„Það er alvarleg hætta á að þessi stefna hafi þær afleiðingar að þriðjungur af byggðum frumbyggja í norðurhluta landsins leggist í eyði. Skýrslan sýnir fram á hið einstaka og sérstaka samband sem frumbyggjar hafa við landið og hvernig stefna stjórnvalda stefnir því sambandi í voða og þar af leiðandi fólkinu og menningu þess,“ segir Claire Mallinson, framkvæmdastjóri Amnesty í Ástralíu.

Segir Mallinson rannsóknina sýna fram á að frumbyggjar lifi betur og lengur í litlum samfélögum á sínum eigin jörðum og þar sé minna um félagsleg vandamál eins og heimilisofbeldi og lyfjamisnotkun.

Frumbyggjar Ástralíu eru sá þjóðfélagshópur sem stendur verst en þeir eru um 470 þúsund af 22 milljónum íbúa landsins. Meðallífslíkur þeirra eru lægri en gengur og gerist og hlutfallslega fleiri þeirra dúsa í fangelsi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert