Ron Paul hunsaður af fjölmiðlum

Bandaríski fulltrúadeildarþingmaðurinn Ron Paul.
Bandaríski fulltrúadeildarþingmaðurinn Ron Paul. Reuters

Helstu fjölmiðlar vestanhafs hafa algerlega hunsað árangur fulltrúadeildarþingmannsins Rons Paul í skoðanakönnun sem gerð var í Iowa-ríki í Bandaríkjunum um helgina á stuðningi við þá einstaklinga sem gefið hafa kost á sér í forvali Repúblikanaflokksins fyrir forsetakosningarnar á næsta ári. Meðal annars er fjallað um þetta á vefsíðu bandaríska tímaritsins News Max í dag.

Einungis munaði 152 atkvæðum á Michelle Bachmann, fulltrúadeildarþingmanni frá Iowa sem varð í efsta sæti, og Paul í könnuninni sem yfir 17 þúsund manns tóku þátt í. Hins vegar fékk árangur hans enga umfjöllun hjá helstu fjölmiðlum landsins í tengslum við hana ólíkt öðrum frambjóðendum sem urðu ofarlega í könnuninni.

Paul hefur haft ákveðna sérstöðu umfram aðra frambjóðendur í forvalinu en hann er frjálshyggjumaður og telja margir að það sé ástæðan fyrir því að hann hafi verið hunsaður af fjölmiðlum vestanhafs sem margir hverjir hallast til vinstri í bandarískum stjórnmálum. Sterk útkoma Pauls í könnuninni í Iowa hefur hins vegar gefið stuðningsmönnum hans góðar vonir um gengi hans í forvalinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert