Fjölgar í dönskum fátækrahverfum

Frá Mjølnerparken á Norðurbrú í Kaupmannahöfn, sem er eitt alræmdasta …
Frá Mjølnerparken á Norðurbrú í Kaupmannahöfn, sem er eitt alræmdasta gettó landsins. www.norden.org

Sú stefna dönsku ríkisstjórnarinnar, að fá innflytjendur til að flytja út úr fátækrahverfum, gettóum, hefur mistekist hrapallega. Þvert á móti fjölgar þeim innflytjendum sífellt sem búa í slíkum hverfum.

Í lok ársins 2001 setti ríkisstjórn Danmerkur á stefnuskrá sína að fækka þeim innflytjendum sem koma frá löndum utan Vesturlanda í þeim 26 hverfum landsins, sem eru skilgreind sem gettó.

Í frétt á vefsíðu danska dagblaðsins Berlingske Tidene segir að á tímabilinu 2003 - 2010 hafi fjöldi þeirra innflytjenda sem búa í hverfunum aukist um 7,8%. Nú eru næstum því tveir af hverjum þremur íbúum hverfanna, eða 63,5%, ættaðir frá löndum utan hins vestræna heims. 

Árið 2003 var hlutfall þeirra 58,9%.

Þetta kemur fram í svari félagsmálaráðherra Danmerkur, Benedikte Kjær, til  Mette Frederiksen sem er þingmaður Sósíaldemókrata.

„Tölurnar sýna okkur að stefna ríkisstjórnarinnar í þessum málum gengur ekki. Þau hafa talað um það í tíu ár hversu mikilvægt það sé að breyta íbúasamsetningunni í gettóunum og svo verður þróunin öfugt við það,“ segir Frederiksen.

Kjær segir aftur á móti að breytingar sem þessar taki langan tíma og er viss um að ríkisstjórnin nái markmiði sínu fyrir árið 2020.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert