Voðaverk Gaddafis gerð opinber

Múammar Gaddafi.
Múammar Gaddafi. Reuters

Hersveitir Gaddafis nota óbreytta borgara sem vörn gegn skothríð, þeir ráðast að sjúkrabílum og nauðga barnungum stúlkum. Þetta segja bandarísku mannréttindasamtökin „Læknar í þágu mannréttinda“ eftir að hafa tekið viðtöl við 54 íbúa líbísku borgarinnar Misrata.

Í skýrslu, sem unnin var á grundvelli viðtalanna, kemur fram að hermenn Gaddafis þvinguðu 107 óbreytta borgara til að standa vörð við hergagnageymslu, sem NATO hugðist varpa sprengjum á. Þar voru tvö börn neydd til að sitja ofan á skriðdreka.

Einnig kemur fram í skýrslunni að hersveitir Gaddafis hafi ráðist á kirfilega merkta sjúkrabíla og tekið a.m.k. einn sjúkrabílstjóra til fanga og pyntað hann. Hersveitirnar réðust ennfremur inn á hjúkrunarheimili og ráku tæplega 40 gamalmenni úr úr húsinu. Ekki er vitað um afdrif þeirra.

Eitt vitnanna sagði að hersveitirnar hefðu gert grunnskóla að bækistöð þar sem þeir nauðguðu konum og barnungum stúlkum. Sum fórnarlambanna voru myrt.

Í skýrslunni segir að hersveitin hafi fengið skipanir um að svelta óbreytta borgara og hindra aðgengi að hjálpargögnum, sem hafa borist víðs vegar að. Fangar voru sveltir, þeim neitað um vatn og þeir pyntaðir svo dögum skipti.

Í skýrslunni kemur ekki fram hvort uppreisnarmennirnir hafi aðhafst eitthvað viðlíka.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert