Upptökur frá 11. september birtar

„Sagðir þú að eitthvað hefði lent á World Trade Center?" spurði furðu lostinn bandarískur hermálafulltrúi skömmu eftir að hryðjuverkaárásirnar hófust á Bandaríkin 11. september 2001.

Nokkrum mínútum síðar, eftir að flugumferðarstjórn varaði við því að farþegaflugvél hefði sveigt af leið og væri aðeins um 10 km frá Hvíta húsinu sagði stjórnstöðin í Washington að þetta væri sennilega aðeins orðrómur.

Skömmu síðar lenti flugvél frá American Airlines á Pentagon. 

Bandarísk stjórnvöld hafa birt hljóðupptökur af samtölum sem áttu sér stað milli flugumferðarstjóra, flugstjóra og hermálayfirvalda meðan á hryðjuverkaárásunum stóð. Þessar upptökur sýna hve Bandaríkin voru óviðbúin því sem gerðist. 

Hlutar af þessum upptökum hafa birst áður en nú hefur Rutgers Law Review birt allar upptökurnar. Þar heyrist þegar flugumferðarstjórar reyna að komast að því hvað hafi komið fyrir farþegaflugvélarnar fjórar sem rænt var þennan dag, hvar þær séu og hvert þær stefni. 

Í einu samtalinu segir flugumferðarstjóri í New York, að fréttir hafi borist um eld í turnum World Trade Center. „Og það er svæðið þar sem flugvélin hvarf," segir hann.

Á sama tíma heyrist flugmaður segja: „Veit einhver hvaða reykur þetta er, sem sést yfir Manhattan?" 

Starfsmaður í flugturni í Boston segir. „Það er vandamál hér, flugvél sem var rænt stefnir á New York og það þarf einhver að senda F-16 (orrustuflugvélar) eða eitthvað til að hjálpa okkur."  

Svarið er: „Er þetta raunveruleiki eða æfing?" 

Hægt er að skoða útskrift af hljóðupptökunum á vef Rutgers Law Review 

Síðari flugfélin stefnir á turn World Trade Center.
Síðari flugfélin stefnir á turn World Trade Center. Reuters
Annar turna World Trade Center í New York hrynur, um …
Annar turna World Trade Center í New York hrynur, um það bil klukkustund eftir að flugvélunum var flogið á byggingarnar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka