Turnarnir féllu „þægilega“ niður

Um 3000 manns létust í árásunum 11. september.
Um 3000 manns létust í árásunum 11. september. Reuter

Fyrrum forsætisráðherra Malasíu til 22 ára, Mahathir Mohamad, segir ómögulegt að múslimskir arabar hafi haft getu til þess að skipuleggja árásirnar 11. september fyrir 10 árum. Hann gagnrýndi fyrrum forseta Bandaríkjanna, George Bush, harðlega í bloggi sínu á föstudag.

„Bush laug um gjöreyðingarvopn Saddams... ef þeir geta logið til þess að drepa íraska, afganska og bandaríska hermenn er ekki óhugsandi að Bush og félagar hafi logið til um hverjir báru ábyrgð á 9/11,“ skrifaði hinn 86 ára Mohamad.

Gaf hann í skyn að bandarísk stjórnvöld hefðu sjálf staðið að árásunum en sú samsæriskenning hefur verið nokkuð vinsæl meðal netverja. Sagði hann m.a. að turnarnir hefðu fallið nokkuð „þægilega“ niður á sjálfa sig.

„Ég trúi því að múslimskir arabar séu nógu reiðir til þess að fórna lífi sínu. En mér þykja hvorki þeir né yfirmenn þeirra færir um að leggja á ráðin um árásir af þessu tagi, þannig að hámarksskaði hljótist af.“

Mohamad sagði í fyrra að ef Bandaríkin gætu framleitt mynd á borð við Avatar gætu þeir framleitt hvað sem væri og sagði sterkar vísbendingar um að árásirnar 11. september hefðu verið settar á svið.

Hann kallaði einnig Bush og Tony Blair, fyrrum forsætisráðherra Breta, barnamorðingja og stríðsglæpamenn og sagði að draga ætti þá fyrir dómstóla fyrir innrásina í Írak.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert