Lagarde fundar með Sarkozy

Christine Lagarde
Christine Lagarde Reuters

Forstjóri Alþjóða gjaldeyrissjóðsins, Christine Lagarde, og Nicolas Sarkozy, forseti Frakklands, hittust í dag á fundi til að ræða fjármálavanda evrusvæðisins.

Sarkozy mun einnig halda til Berlínar nú um helgina og hitta fyrir kanslara Þýskalands, Angelu Merkel, og ræða við hana um aðstoð til handa evrópskum bönkum sem hafa þurft að taka á sig 200 milljarða evra skell vegna skuldakreppunnar á evrusvæðinu, samkvæmt mati Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Frá þessu segir á vef breska ríkisútvarpsins BBC.

Evrópusambandið hefur hvatt aðildarríki sín til þess að grípa til aðgerða sem endurvakið geti traust á bankakerfinu. Þýskaland og Frakkland hafa ekki komist að samkomulagi enn um hvað skuli gera í þeim efnum.

Í gær lækkaði matsfyrirtækið Fitch lánshæfiseinkunn ítalska ríkisins um eitt stig og þess spænska um tvö og fylgdi með því í fótspor matsfyrirtækisins Standard & Poor's og Moody's. Moody´s lækkaði lánshæfiseinkunn 12 banka í Bretlandi og níu í Portúgal.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert