Saleh fer frá á næstu dögum

Forseti Jemen,  Ali Abdullah Saleh, segist tilbúinn til að fara frá völdum innan tíðar. Landsmenn hafa krafist stjórnarskipta undanfarna átta mánuði.

„Ég vil ekki lengur vera við völd og mun afsala mér þeim á næstu dögum,“ sagði Saleh í ávarpi sem sent var út í sjónvarpi.

„Það eru menn, bæði innan hersins og óbreyttir borgarar, sem eru hæfir til að stjórna Jemen,“ sagði Saleh.

Hann sagði að „það kæmi ekki til greina að leyfa uppreisnarmönnum að eyðileggja landið“.

Saleh hefur verið forseti í 33 ár og hefur ítrekað neitað að fara frá völdum, þrátt fyrir mikinn þrýsting bæði heima fyrir og frá alþjóðasamfélaginu.

Tawakkul Karman, friðarverðlaunahafi Nóbels í ár og einn af leiðtogum mótmælanna í landinu segir að Saleh sé lítt treystandi og að mótmælin muni halda áfram uns hann fer frá.

„Við trúum þessum manni ekki og ef hann vill fara frá, þá gerir hann það,“ sagði hún í viðtali við sjónvarpsstöðina  Al-Jazeera. „Hann þarf að afsala sér völdunum sem hann rændi til uppreisnarmanna,“ sagði Karman. „Við munum halda áfram með okkar friðsamlegu byltingu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert