Mótmælt í Kænugarði

Um 2.000 stuðningsmenn Júlíu Tímósjenkó, fyrrverandi forsætisráðherra Úkraínu, komu saman fyrir utan dómshúsið í Kænugarði, höfuðborg landsins, þar sem Tímósjenkó var í dag dæmd í sjö ára fangelsi.

Fjölmennt lið óeirðalögreglumanna var á svæðinu og ýttu mótmælendur á lögreglumennina sem svöruðu með því að ýta á móti.

Andstæðingar Tímósjenkó létu einnig sjá sig til að hlýða á úrskurð dómaranna.

Hún hlaut í dag sjö ára dóm fyrir að hafa farið út fyrir valdsvið sitt þegar hún skrifaði undir samkomulag við Rússa um gasflutninga árið 2009.

Þegar dómarinn var lesa úrskurðinn reis Tímósjenkó á fætur til að fordæma núverandi stjórnvöld. Hún sagði að nú væri aftur árið 1937 í Úkraínu og að verið væri að kúga landsmenn.

„Allir verða að vera sterkir í dag. Ég hvet allt góðviljað fólk, alla föðurlandsvini í Úkraínu að vernda Úkraínu gegn alræðisvaldi,“ sagði hún. Mikið óréttlæti ríki nú í landinu.

Viktor Janúkóvitsj hafði betur en Tímósjenkó í forsetakosningunum sem fram fóru í landinu í fyrra.

Réttarhöldin yfir Tímósjenkó stóðu yfir í þrjá mánuði. Evrópusambandið hefur aðvarað yfirvöld í Úkraínu vegna málsins, en það segir að fangelsun Tímósjenkó gæti skaðað viðskiptasamband ESB við Úkraínu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert