Nefndur „svínið“ og „bavíaninn“ í nýrri bók

Dominique Strauss-Kahn
Dominique Strauss-Kahn Reuters

Franski rithöfundurinn, Tristane Banon, sem hefur sakað Dominique Strauss-Kahn, fyrrum framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, fyrir tilraun til nauðgunar, hefur skrifað bók um málið. Í bókinni er Strauss-Kahn hvergi nafngreindur heldur nefndur „svínið“ og „bavíaninn“.

Þetta herma heimildir AFP fréttastofunnar en bókin „Le bal des hypocrites“, sem er 128 bls. að lengd, kemur út á morgun.

Banon hefur kært Strauss-Kahn fyrir að hafa reynt að nauðga henni í íbúð í París árið 2003 er hún kom að hitta hann vegna viðtals. Hann var þá fjármálaráðherra Frakklands.

Strauss-Kahn hefur viðurkennt að hafa reynt við Banon, sem er 30 árum yngri en hann og dóttir fjölskylduvinar, en hann neitar að hafa beitt hana ofbeldi. Strauss-Kahn hefur höfðað meiðyrðamál gegn Banon vegna ásakana hennar.

Banon greindi fyrst frá málinu í sjónvarpsþætti árið 2007 og líkti honum þar við simpansa á fengitíma en hún lagði ekki fram formlega kæru fyrr en eftir að hótelþerna í New York sakaði Strauss-Kahn um að hafa reynt að nauðga sér á hótelherbergi þann 14. maí sl. Var Strauss-Kahn ákærður fyrir að hafa reynt að nauðga herbergisþernunni en ákæran var síðar dregin til baka þar sem þernan hafði gerst sek um að bera ljúgvitni.

Strauss-Kahn neitaði að hafa beitt þernuna ofbeldi en viðurkenndi að hafa haft kynferðisleg samskipti við þernuna þær sjö mínútur sem hún dvaldi í herberginu. Málinu var vísað frá en von hans um að verða forsetaframbjóðandi Sósíalistaflokksins í Frakklandi urðu að engu.

Franska lögreglan hefur yfirheyrt Banon og Strauss-Kahn vegna ásakana Banon og er það nú í höndum saksóknara að ákveða hvort ákært verði í málinu, vísa eigi því frá eða úrskurða að of langt sé liðið til þess að hægt sé að leggja fram ákæru.

Bók Banon kemur út í 40 þúsund eintökum og að sögn Marion Mazauric, stofnanda Au Diable Vauvert útgáfunnar, fær Banon ekkert greitt fyrir bókina. Í bókinni lýsir hún því hvernig minningar um það sem hún gekk í gegnum spruttu fram er hún sá „bavíanann“ koma fram í sjónvarpi þegar hann var ákærður í New York. Það sannfærði hana um að leita réttlætis í sínu máli.

Sá eini sem er nefndur sínu réttu nafni í bókinni er David en þar er vinur hennar og lögmaður David Koubbi á ferð. Hann aðstoðaði hana við að leggja fram kæru í málinu. Eins er kötturinn hennar, Flaubert nafngreindur í bókinni.

Tristane Banon
Tristane Banon Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert