Hrói höttur Grænlands fyrir rétt

Danskir peningar.
Danskir peningar.

Atvinnulaus Grænlendingur sem nefndur hefur verið „hinn grænlenski Hrói höttur“ mætir í dag fyrir hæstarétt í Danmörku vegna fremur sérkennilegs máls sem velkst hefur um í kerfinu um hríð.

Maðurinn, sem er frá bænum Nanortalik í Grænlandi, er ákærður fyrir að gefa frá sér fé sem hann ekki átti, en málið atvikaðist þannig að árið 2008 fékk hann einn daginn tilkynningu frá banka, þar sem hann var ekki í viðskiptum, um að þar hefðu 1,3 milljónir danskra króna verið lagðar inn á reikning í hans nafni. Maðurinn var efins í fyrstu og hringdi í bankann til að kanna hvort þetta gæti staðist, og bankinn staðfesti það.

Fyrir rétti hefur maðurinn útskýrt að hann hafi talið þetta vera óvæntan vinning í þýsku lottói, þar sem hann hafði keypt miða nokkrum árum fyrr. Hann millifærði 700.000 DKK inn á sinn eigin reikning í öðrum banka og eyddi 45.000 DKK í sjálfa sig, fjölskyldu sína og aðra sem hann taldi að þyrftu á peningum að halda. M.a. fór hann í matvöruverslanir, fylltu margar kerrur af mat og gaf. Handa sjálfum sér keypti hann lítinn bát og nýja tölvu, auk þess sem hann keypti farsíma handa öllum í fjölskyldunni.

Fljótlega var hinsvegar endi bundinn á gjafmildina þegar bankinn áttaði sig á mistökunum. Hald var lagt á bátinn og tölvuna, en restina af peningunum var ekki hægt að ná til baka. Maðurinn var ákærður og var fyrst sýknaður í undirrétti á Grænlandi en svo fundinn sekur í hæstarétti. Hann var dæmdur til 100 ára samfélagsþjónustu, áfengis- og sálfræðimeðferðar. Hann áfrýjaði málinu til hæstarétts Danmerkur og hefst fyrirtaka þess  þar í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert