Peres ýjar að hernaðaríhlutun

Forseti Ísraels Shimon Peres
Forseti Ísraels Shimon Peres Reuters

Forseti Ísraels, Shimon Peres, segir að alþjóðasamfélagið færist nær því að beita hernaðaríhlutun gagnvart Íran vegna kjarnorkuáætlunar landsins í stað þess að áfram verði reynt að ná diplómatískri lausn málsins. Þykja ummæli forsetans merkileg fyrir þær sakir að hann er þekktur fyrir að vilja leita friðsamlegrar lausnar á slíkum málum.

Áhyggjur manna af kjarnorkuáætlun Írana fara nú hratt vaxandi og er rætt um að Bandaríkjamenn íhugi loftárás á tilraunastöðvarnar sem eru vel varðar í djúpum neðanjarðarbyrgjum. Breska dagblaðið Guardian hefur eftir heimildarmönnum í breska varnarmálaráðuneytinu að þar sé unnið að viðbragðsáætlun sem notuð verði ef til árása komi. Bretar muni veita Bandaríkjamönnum aðstoð, fari þeir fram á hana.

Blaðið segir að innan skamms muni Alþjóðakjarnorkumálastofnunin, IAEA, birta nýja skýrslu um tilraunir Írana, þar verði nýjar vísbendingar um að tilraunirnar miði að smíði kjarnorkuvopna. Íranar hafa ávallt staðhæft að um friðsamlegar rannsóknir sé að ræða.

Ísraelar hafa lengi hvatt til þess að tilraunirnar verði stöðvaðar með vopnavaldi og sagt að eftir eitt eða tvö ár geti það verið of seint. Íran verði þá búið að koma sér upp gereyðingarvopnum.

Tölvuárásir á skilvindubúnað í tilraunastöðvunum, sem flestir álíta að Ísraelar og Bandaríkjamenn hafi staðið fyrir, hafa að vísu tafið fyrir Írönum en talið er að þeir eigi nú þegar auðgað úran sem dugi í nokkrar sprengjur. Ísraelska blaðið Haaretz segir að Benjamin Netanyahu forsætisráðherra reyni nú að fá meirihluta í ríkisstjórninni til að samþykkja árás á Íran.

Peres sagði í sjónvarpsviðtali í dag að leiðtogar heimsins yrðu að standa við stóru orðin um að stöðva Íran hvað sem það kostar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert