Ekki búist við neinu af Assad

Frá útför mótmælenda í bænum Hula, skammt frá Homs.
Frá útför mótmælenda í bænum Hula, skammt frá Homs. Reuters

Alain Juppe, utanríkisráðherra Frakklands, sagði í morgun að augljóst væri að Bashar al-Assad, forseti Sýrlands hefði ekki í hyggju að fara að tillögum Arababandalagsins um frið í landinu.

„Persónulega tel ég að ekki sé hægt að búast við frekari viðleitni af hálfu ríkisstjórnar Assads og að þrátt fyrir yfirlýsingar þess efnis sé ekki vilji til umbóta í landinu,“ sagði Juppe í viðtali á útvarpsstöðinni Europe 1.

„Ýmislegt hefur verið reynt til að ræða við Assad. Við sjáum hvernig það hefur farið; hann samþykkti friðaráætlun Arababandalagsins og næsta dag lætur hann taka tugi manna af lífi á götum úti,“ sagði Juppe.

Sameinuðu þjóðirnar áætla að meira en 3000 manns hafi látið lífið í mótmælunum í Sýrlandi frá því að þau hófust um miðjan mars.

„Ég harma það sem er að gerast þarna og framvinda mála hugnast ekki Sameinuðu þjóðunum,“ sagði Juppe.

Tillaga um aðgerðir SÞ gagnvart sýrlenskum stjórnvöldum var felld í síðasta mánuði af Rússum og Kínverjum í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna.

„Þetta voru mistök,“ segir Juppe. „Frakkar munu ekki taka þátt í hernaðaraðgerðum ef það er engin heimild til þess frá Sameinuðu þjóðunum. Við erum að ræða við leiðtoga mótmælenda og erum að aðstoða þá við að skipuleggja starfsemi sína.“

Sýrlenskar öryggissveitir myrtu fjóra óbreytta borgara sem voru við mótmæli í morgun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert