Breivik taldi sig geta drepið milli 100 og 700

Anders Behring Breivik hafði nokkrar útfærslur af hryðjuverkum í huga …
Anders Behring Breivik hafði nokkrar útfærslur af hryðjuverkum í huga en taldi á endanum Útey vera auðveldasta skotmarkið. Reuters

Fjöldamorðinginn Anders Behring Breivik hefur útskýrt við yfirheyrslur að hann hafi áætlað að hann ætti að geta drepið á bilinu 100 til 700 manns áður en hann yrði stöðvaður, hinn 22. júlí síðastliðinn.  Breivik segist hafa haft 30 ólíkar útfærslur á hryðjuverkum í huga en á endanum talið Útey vera auðveldasta skotmarkið.

Nokkrum vikum fyrir hryðjuverkin sigldi Breivik út í eyjuna til að kanna aðstæður. Helsta markmið hans var að augu umheimsins myndu beinast að honum til að vekja athygli á stefnuskránni sinni. Við yfirheyrslur hefur komið fram að hann gerði þrjár ólíkar áætlanir um Útey eftir því hvernig málin myndu þróast og flokkaði þær eftir „verstu mögulegu“, „líklegustu“ og „bestu mögulegu“ niðurstöðum. Hann bjóst við því að ná að drepa milli 12 og 100 manns, en vonaðist þó til þess að fórnarlömbin yrðu á milli 100 og 700.

Frá Útey hringdi hann tvisvar í lögregluna. Í fyrra skiptið var kl. 18.01, um hálftíma áður en hann var handtekinn. Breivik hringdi þá til að segjast vilja gefast upp. Hann staðhæfði þá að hann hefði drepið yfir 12 manns og taldi að það væri nóg til að fá athygli alls heimsins. Sambandið við lögreglu slitnaði hinsvegar, svo Breivik hélt áfram skothríðinni í 25 mínútur, þar til hann hringdi aftur í lögreglu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert