Óttast framtíð ESB

Alain Juppe
Alain Juppe Reuters

Utanríkisráðherra Frakklands, Alain Juppe, segir að fjármálakreppan í Evrópu veki spurningar um hvort Evrópusambandið lifi af. „Evrópa er í tilvistarkreppu," segir Juppe í viðtali við vikuritið L'Express í dag.

Hann segir ástandið vekja spurningar um stöðu Evrópusambandsins, ekki bara þróun þess síðustu tuttugu ár frá gerð Maastricht samkomulagsins heldur allt frá stofnun þess.

Juppe segir að barátta ríkjanna sautján sem eru innan evru-svæðisins við gríðarlega skuldasöfnun geti fellt evruna og það gæti haft alvarlegar afleiðingar fyrir Evrópusambandið í heild.

Hann segir að sú hætta sem er yfirvofandi vegna ört vaxandi ofbeldisfullrar þjóðernishyggju geri það að verkum að það sé enn mikilvægara en áður að vernda evruna og Evrópusambandið. „Við erum komin of langt til þess að halda ekki áfram."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert