Kreppan afleiðing spákaupmennsku bankanna

Eva Joly
Eva Joly Reuters

Eva Joly, forsetaframbjóðandi Græningja í Frakklandi, segir að skuldakreppan á evrusvæðinu tengist því að stjórnvöld studdu bankana fjárhagslega. Bankarnir fóru í spákaupmennsku með ríkisskuldabréf með skelfilegum afleiðingum. Þetta kom fram í máli Joly í Silfri Egils, en Egill Helgason fór til Parísar og tók viðtal við Joly í síðustu viku.

Hún segir að bresk og hollensk yfirvöld hafi ekki sinnt starfi sínu sem skyldi þar sem þau hafi ekki fylgst nægjanlega með Icesave á sínum tíma.

Joly telur að Evrópusambandið þurfi á betri seðlabanka að halda en Seðlabanki Evrópu er í dag og byggja þurfi upp banka í líkingu við Seðlabanka Bandaríkjanna. Hún vill einnig sjá sameiginlega efnahagsstjórn innan sambandsins. Hún styður Evrópusambandið og telur það eitt besta verkefnið sem Evrópubúar hafa tekist á við. Þrátt fyrir kreppu nú væri Evrópa verr sett með sundruðum ríkjum í stað sameinaðra innan ESB.

Hún segir að það eigi ekki að líða það að fólk greiði ekki skatta í heimalandi sínu og nýti sér skattaskjól. Ríkin þurfi á þessu fé að halda sem auðmenn fela í skattaskjólum. Allt of mikið umburðarlyndi sé gagnvart efnahagsglæpum í heiminum og það snúist um pólitík. Tengslin á milli valdamanna í stjórnmálum og viðskiptalífsins séu allt of mikil og náin.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert