Sachs: Stofnanir Evrópu virka ekki

Prófessor Jeffrey Sachs.
Prófessor Jeffrey Sachs.

Jeffrey Sachs, hagfræðingur við Columbia-háskóla og einn þekktasti álitsgjafi heims um alþjóðavæðingu, telur að stofnanir Evrópusambandsins virki ekki sem skyldi andspænis skuldakreppunni. Sachs var ráðgjafi grísku ríkisstjórnarinnar í sumar.

Sachs lýsti þessu yfir í samtali við breska dagblaðið Guardian.

Kom þar fram sú skoðun hans að ef Evrópuverkefnið, sem svo er nefnt, og evrusvæðið eiga að ganga upp þurfi öll aðildarríkin, 17 í tilviki evrusvæðisins og 27 í tilviki Evrópusambandsins, að koma að borðinu. Ekki gangi að Þjóðverjar ráði för í þeim aðgerðum sem gripið verður til í því skyni að takast á við skuldavandann.

Sachs segir framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hafa verið á hliðarlínunni og hefur eftir ónefndum fulltrúa hennar að það sé Þjóðverja að leysa skuldavandann.

„Þetta gengur ekki upp. Jafnvel þótt Þýskaland sé valdamesta hagkerfið getur Þýskaland ekki einfaldlega stýrt stefnumótun um gervalla Evrópu. Hin ríki Evrópu munu ekki þrífast í þannig umhverfi þar sem útkoman í stefnumótun er summan af stjórnmálum þýska ríkisins og þýsku samsteypustjórnarinnar.“

Þá segir Sachs „sláandi“ að horfa upp á að Evrópski seðlabankinn í Frankfurt hafi ekki gert sér grein fyrir hlutverki sínu í skuldakreppunni og bendir á að evran sé „annar mikilvægasti“ gjaldmiðill heims.

Evrópski seðlabankinn sé á braut „sjálfseyðingar“ og á leið með að láta spár um endalok evrusvæðisins rætast, verði ekki gripið til aðgerða.

Sachs kveðst ekki vilja leggja mat á líkurnar á því að evrusvæðið lifi af. Hann eigi engra hagsmuna að gæta af því að gjaldmiðilssamstarfið líði undir lok, líkt og margir spákaupmenn geri þessa dagana.

Viðtalið við Sachs má nálgast hér.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert