Átök á ungverskum fjölmiðlamarkaði

Forsætisráðherra Ungverjalands Viktor Orban
Forsætisráðherra Ungverjalands Viktor Orban Reuters

Helsta ríkisfréttastofa Ungverjalands, MTI, rak í gær fréttastjóra stofunnar og lækkaði ritstjórann í tign vegna umfjöllunar sem þykir sýna berlega tilburði stjórnvalda til að hafa áhrif á umfjöllun fjölmiðla í landinu. Í kjölfar fréttarinnar hófu nokkrir blaðamenn hungurverkfall í mótmælaskyni.

Í fréttatilkynningu kemur fram að Gabor Elo, fréttastjóri MTI, sem framleiðir allar fréttir fyrir ríkissjónvarpið, hafi verið rekinn vegna alvarlegra mistaka í starfi.

Starfsmenn Elos gerðu frétt þann 3. desember þar sem andliti dómstjóra, Zoltan Lomnici var breytt án nokkurrar skýringar. Þótti þetta vísbending um að ætlunin væri að gera Lomnici, sem er einn helsti gagnrýnandi stjórnvalda, grunsamlegan. 

Var litið á fréttina sem síðasta hálmstrá stjórnvalda til þess að hafa áhrif á fréttaflutning fjölmiðla í landinu. Í kjölfar birtingar fréttarinnar hófu fimm blaðamenn hungurverkfall í mótmælaskyni.

Ár er síðan umdeild fjölmiðlalög voru sett í Ungverjalandi en þingmenn á löggjafaþinginu í Búdapest samþykktu fyrir jólin í fyrra lög sem kváðu á um að sett yrði á fót ný fjölmiðlanefnd sem hefði vald til að sekta dagblöð sem ekki væru með jafnvægi í umfjöllun sinni.

Eins var Daniel Papp settur af sem ritstjóri MTI vegna skorts á fagmennsku í tengslum við fréttina sem birtist þann 3. desember.

Papp, sem er fyrrum talsmaður hægriflokksins Jobbik, er einnig sakaður um að  hafa ráðskast með fréttaflutning í apríl þar sem sú mynd er dregin af Daniel Cohn-Bendit, þingmanni Græningja á Evrópuþinginu og hörðum gagnrýnanda forsætisráðherra Ungverjalands, Viktor Orban, að hann tengist barnaníði.

Aranka Szavuly, einn þeirra blaðamanna sem fóru í hungurverkfall, segir að brottvikning fréttastjóra og að ritstjórinn var lækkaður í tign, sýni að aðgerðirnar hafi verið nauðsynlegar og skili árangri. Blaðamennirnir hafa einnig farið fram á að þrír yfirmenn MTI, þar á meðal Papp, verði reknir frá störfum.

Manneskja sem ráðskast með sjónvarpsfréttir á ekki að gegna lykilstöðu hjá fjölmiðlum í eigu ríkisins, segir Szavuly.

Ungversku fjölmiðlalögin hafa verið harðlega gagnrýnd og hefur meðal annars Evrópusambandið sagt lögin stangist á við tjáningarfrelsi og sé bergmál pólitísks tangarhalds á blaðamennsku og fjölmiðlum frá tímum kommúnismans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert