Hreyfingar Palestínumanna funda í Kaíró

Khaled Meshaal, leiðtogi Hamas (vinstri) og Mahmoud Abbas, forseti Palestínu …
Khaled Meshaal, leiðtogi Hamas (vinstri) og Mahmoud Abbas, forseti Palestínu og leiðtogi Fatah (hægri). Reuters

Fulltrúar frá öllum helstu hreyfingum Palestínumanna hittust í Kaíró, í dag, í þeim tilgangi að ræða leiðir til þess að hrinda í framkvæmd sáttasamkomulagi sem legið hefur á ís. Fundurinn er haldinn af egypsku leyniþjónustunni.

Ekki eru þó allir vongóðir um jákvæða niðurstöðu. Þannig sagði Azzam al-Ahmed, formaður sendinefndar Fatah hreyfingarinnar, að hann sæi ekki fram á að samningar næðust um lykilmál á borð við öryggismál og bráðabirgðaríkisstjórn fyrr en í lok janúar næstkomandi. „Markmið fundarinn er aðeins eitt: að setja af stað ferli til þess að binda enda á þann klofning sem ríkir á meðal Palestínumanna,“ sagði al-Ahmed.

Að sögn al-Ahmed eru allskyns málefni á dagskrá fundarins, þ. á m. myndun starfsstjórnar, öryggismál, þing- og forsetakosningar sem eiga að fara fram í maí næstkomandi og svo endurvakning Frelsissamtaka Palestínu (PLO). „Stefnt er að því að ná samkomulagi á fundinum í dag um skipan palestínskrar kjörstjórnar sem mun undirbúa kosningarnar,“ sagði al-Ahmed."

Að sögn Izzat al-Rishq, hátt setts fulltrúa í sendinefnd Hamas, er vonin sú að báðar fylkingar nái sáttum um að sleppa lausum þeim pólitísku föngum sem eru í haldi beggja fylkinga. „Við viljum byggja upp traust og við vonum að þessi fundur muni sýna fram á jákvæða þróun í þeim efnum,“ sagði al-Rishq og bætti við „Með þessum fundi, eru allar þjóðarhreyfingar Palestínumanna að staðfesta vilja sinn til þess að binda enda á klofninginn fyrir lok árs 2011.“

Fulltrúar frá hinum andstæðu fylkingum, Fatah og Hamas, hafa fundað í Kaíró frá því á sunnudaginn sl. um leiðir til þess að hrinda í framkvæmd tímamóta-sáttasamkomulagi sem undirritað var síðastliðinn maí en hefur ekki ennþá verið fylgt eftir.

Næstkomandi fimmtudag mun Mahmud Abbas, forseti Palestínu og leiðtogi Fatah, stýra fundi á vegum PLO nefndarinnar, en það er nefnd sem komið var á fót árið 2005 í þeim tilgangi að leita leiða til þess að endurvekja Frelsissamtök Palestínu. Leiðtogar allra helstu hreyfinga Palestínumanna eiga sæti í PLO nefndinni en á meðal fundargesta næsta fimmtudag verða Khaled Meshaal, leiðtogi Hamas og Ramadan Shalla, leiðtogi Islamic Jihad.

Hvorki Hamas né Islamic Jihad tilheyra Frelsissamtökum Palestínu en nú þegar eru hafnar viðræður um að endurskipuleggja Frelsissamtökin í þeim tilgangi að heimila þeim aðild að þeim.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert