Danir vinni gegn sölubanni á sel

ESB bannaði innflutning á selaafurðum, Grænlendingum til lítillar gleði.
ESB bannaði innflutning á selaafurðum, Grænlendingum til lítillar gleði. mbl.is

Bæðin Inúítaráðið (ICC) og samtök grænlenskra veiði- og fiskimanna (KNAPK) telja að nýta eigi formennsku Dana í Evrópusambandinu (ESB) til að fá aflétt banni við sölu á selafurðum í ESB. Kupik Kleist, formaður grænlensku landstjórnarinnar, telur það óraunhæft.

Grænlenska útvarpið greinir frá þessu. Danir tóku við formennsku í ESB um áramótin. Aqqaluk Lynge, formaður Inúítaráðsins, sem eru samtök Inúíta hringinn í kringum norðurskautssvæðið, nefndi í nýársávarpi sínu að Danir ættu að vinna að því að aflétta banninu.

Samtök grænlenskra veiði- og fiskimanna eru sömu skoðunar. Þau segja að innflutningsbannið sé brot á yfirlýsingu um réttindi frumbyggja því það komi niður á möguleikum veiðimannanna til að framfleyta sér. Þess vegna eigi grænlenskir stjórnmálamenn að krefjast þess að danska ríkið virði skuldbindingar sínar við frumbyggjana.

Kuupik Kleist, formaður grænlensku landstjórnarinnar, telur það misskilning og óraunhæft að ætla að formennska Dana í ESB komi að gagni í þessu sambandi. Hann telur að Grænlendingar eigi fremur að einbeita sér að samningi sínum við ESB (OLT) sem verður endurnýjaður og ræddur á þessu ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert