Segir EES lýðræðislegt klúður fyrir Noreg

Stórþingið í Ósló í Noregi
Stórþingið í Ósló í Noregi norden.org/Mikael Risedal

Norska blaðið Aftenposten kallar aðild Noregs að Evrópska efnahagssamningnum lýðræðislegt klúður og vísar í því samhengi til skýrslu þar sem gerð hefur verið heildarúttekt fyrir norska Stórþingið á EES-samningnum síðustu 20 árin og áhrifum hans á Noreg.

Aftenposten segir að sá lýðræðislegi halli sem komi fram í skýrslunni skjóti styrkari stoðum undir rök þeirra sem hafa viljað að Noregur sæki um aðild að Evrópusambandinu um leið og hún styrki jafnframt málflutning þeirra flokka sem hafa viljað slíta tengslin við EES-samstarfið.

Tekið er fram að ein helsta röksemdin fyrir því að Norðmenn höfnuðu aðild að ESB, þegar gengið var til þjóðaratkvæðagreiðslu árið 1994, var að þeir vildu halda fullveldi sínu. Þar hafi vegið þungt að Norðmenn vildu ekki láta stjórnast af lögum sem sett væru af öðrum.

Hafi lítil áhrif á lagasetningu

Samkvæmt heimildum Aftenposten hefur rannsóknarnefnd undir forystu Fredriks Sejersteds prófessors tekið saman að Noregur hafi á tímabilinu innleitt rúmlega 8.000 ESB-reglur og þannig hafi sambandið haft mikil áhrif á þróun norsks samfélags síðan 1994.

Norskir stjórnmálamenn komi ekki að ákvarðanatöku laga sem varða Noreg beint og geri mjög lítið í því að reyna að hafa þar áhrif. Þar sem Noregur eigi ekki aðild að sambandinu hafi landið ekki atkvæðisrétt og geti lítið beitt sér. 

Aftenposten segir nefndina benda á að Noregur hafi því í raun enga aðkomu né getu til að hafa áhrif á ákvarðanatöku í Brussel og geti því ekki borið ábyrgð á gildandi stefnu ESB í Noregi. Lítil hafi verið rætt í norsku samfélagi um EES-samninginn og tengsl landsins við ESB þrátt fyrir þá þýðingu sem aðildin hafi fyrir samfélagið.

Aftenposten segir nefndina þó ekki álykta sem svo að EES-samningurinn hafi eingöngu haft neikvæð áhrif á lýðræðislega  þróun. Í gegnum samninginn hafi Noregur komið á réttarbótum sem hafi styrkt réttindi bæði einstaklinga og fyrirtækja.

Eiríkur Bergmann, doktor í stjórnmálafræði og dósent við Háskólann á Bifröst, greinir frá því á bloggi sínu að undafarin tvö ár hafi nefnd skipuð helstu Evrópusérfræðingum Noregs unnið að fyrrgreindri úttekt. Aftenposten sé að þjófstarta málinu með því að birta þessa frétt á forsíðunni en skýrslan verði kynnt á morgun.

Frétt Aftenposten

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert