Þungun vegna nauðgunar er guðsgjöf

Rick Santorum, frambjóðandi í forvalskosningum Reblúkinaflokksins 2012
Rick Santorum, frambjóðandi í forvalskosningum Reblúkinaflokksins 2012 REUTERS

Rick Santorum, sem sækist eftir útnefningu Repúblikanaflokksins í Bandaríkjunum segir í fréttaviðtali við Piers Morgan á CNN, skv. frétt á The Guardian, að hann myndi leggjast gegn því að dóttir sín færi í fóstureyðingu, jafnvel þótt henni hefði verið nauðgað.

Santorum, sem áður var ríkisstjóri í Pennsylvaníu, berst fyrir því að bann við fóstureyðingum verði sett inn í stjórnarskrá Bandaríkjanna. Hann segir að hann myndi hvetja dóttur sína til að líta á þungun, sem hefði komið til við nauðgun, sem gjöf frá Guði.

Aðspurður um hvort þessi afstaða hans yrði sú sama ef dóttur hans þætti það eyðileggja líf sitt að eignast barn eftir nauðgara sinn, sagði hann: „Það má halda því fram með rökum að ef hún haldi ekki fóstrinu, ef hún drepi barnið sitt, að þá gæti það eyðilagt líf hennar.“ Og hann bætir við: „Þetta er ekki auðvelt val, ég skil það. Eins hryllilega og það vildi til að þessi dóttir eða sonur hefðu orðið til, þá er það samt hennar barn og hvort sem hún eignast barnið eða ekki, þá verður það alltaf hennar barn og hún mun alltaf vita það.“

Þegar Santorum var spurður að því hvernig þessi sjónarmið hans kæmu heim og saman við yfirlýsta afstöðu hans með dauðarefsingum sagði hann að hann samþykkti einungis dauðarefsingar þegar það væri öruggt að viðkomandi væri án vafa sekur. „Ég myndi segja að þegar það væri öruggt, og það eru sannarlega þannig aðstæður, að í þeim tilfellum ætti að nota dauðarefsingar.“

Santorum er þekktur fyrir að vera öfgahægrisinnaður kaþólikki. Hann sigraði forvalið í Iowa, en hefur í öðrum ríkjum mátt sætta sig við að vera meðal þeirra neðstu. Hafa ýmis ummæli hans verið rifjuð upp í tengslum við forkosningar Repúblikanaflokksins í ár. Meðal annars frá 2003 þegar hann, í viðtali, jafngilti samkynhneigð við sifjaspell, framhjáhald og tvíkvæni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert