Kuldaboli bítur fast

Tugir íbúa í Mið- og Austur-Evrópu hafa frosið í hel í miklu kuldakasti sem er á þessu svæði. Óttast er að kuldinn eigi enn eftir að sækja í sig veðrið.

Í Póllandi létust 10 úr kulda um helgina en frostið þar fór í 27 gráður. Alls hafa 46 látist úr kulda í Póllandi það sem af er vetri.

Í Ungverjalandi hafa 18 látist úr ofkælingu síðustu fjóra daga. Flestir þeirra voru  heimilislausir og frusu í hel á götum úti. Eins hefur gamalt fólk fundist látið í köldum íbúðum sínum. Tæplega 500 leituðu sér læknisaðstoðar í Úkraínu vegna kalsára og ofkælingar í síðustu viku. Samkvæmt upplýsingum frá heilbrigðisyfirvöldum í Úkraínu hafa 1.500 neyðarskýli verið sett á laggirnar þar sem fólk getur leitað skjóls en frostið er um 30 gráður þar í landi. 

Í Litháen létust þrír um helgina í kuldanum og í Tékklandi fannst einn ungur maður frosinn í hel um helgina. Er spáð 25-30 stiga frosti víða í Eystrasaltsríkjunum næstu daga.

Fjórir hafa látist úr kulda í Rúmeníu síðasta sólarhringinn og eru fórnarlömb kuldans undanfarna daga þar í landi því orðin sex.

Í Serbíu létust þrír úr ofkælingu um helgina og er fólkið á öllum aldri.

Mikil snjókoma hefur haft mikil áhrif á umferð í þessum löndum og víða hefur verið rafmagnslaust. 

Jafnvel í Istanbúl í Tyrklandi hefur nánast allt athafnalíf legið niðri í dag vegna snjókomu. Þar hefur þurft að aflýsa um 200 flugferðum og hundruð sitja föst í bifreiðum sínum vegna ófærðarinnar. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert