Ætlaði að myrða leikskólabarn

mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Sænska lögreglan handtók mann í borginni Lundi gær sem hafði lýst þeim fyrirætlunum yfir á spjallsvæði á netinu að hann hygðist myrða barn af handahófi á leikskóla svo að hann gæti fengið að dveljast á geðdeild.

Maðurinn, sem er 23 ára gamall, sagði við yfirheyrslur að hann hefði haft þessa fyrirætlan um nokkurt skeið, en ekki var gefið upp inn á hvaða leikskóla maðurinn hugðist ráðast.

Við leit á heimili mannsins fundust tveir hnífar sem hann ætlaði að nota við voðaverkið og að auki var hann með sprautu, fyllta af nikótíni, sem hann hugðist nota til að fyrirfara sér ef eitthvað brygðist. 

Maðurinn lýsti því hvað hann hygðist fyrir á spjallsvæðinu Flashback, sem er afar fjölsótt, og létu þeir sem þetta sáu lögreglu þegar vita.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert