Romney sigraði í Washingtonríki

Mitt Romney fagnar sigri.
Mitt Romney fagnar sigri. Reuters

Mitt Romney sigraði í forkosningum repúblikana í Washingtonríki í Bandríkjunum í gær. Romney hlaut 37,6% atkvæða, Ron Paul var með 24,8% og Rick Santorum með 23,8%. Fjórði frambjóðandinn, Newt Gingrich, fékk 10,3%.

„Ég er snortinn yfir því að hafa unnið forkosningarnar í Washingtonríki og ég þakka kjósendum fyrir stuðninginn,“ sagði Romney eftir að úrslitin lágu fyrir. „Hver einasti dagur sem líður með Barack Obama í Hvíta húsinu er dagur þar sem endurbótum í efnahagslífi Bandaríkjanna er frestað.“

Frambjóðendur undirbúa sig nú fyrir þriðjudaginn, sem kallaður er „ofurþriðjudagur“ eða „Super Tuesday“, því þá verða forkosningar í tíu ríkjum, en þau eru Georgía, Massachusetts, Ohio, Oklahoma, Tennessee, Vermont, Virginía, Alaska, Idaho og Norður-Dakóta. Um er að ræða um 400 kjörmenn í þessum ríkjum.

Sigurinn í gær skilaði Romney 43 kjörmönnum, en til þess að hljóta tilnefningu þarf frambjóðandi stuðning 1.144 kjörmanna. 

Romney hefur unnið forkosningar í sjö ríkjum, Santorum hefur unnið í fjórum og Gingrich í einu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert