Konur nauðga körlum á hraðbrautinni

Konurnar þrjár sem í október á síðasta ári voru handteknar …
Konurnar þrjár sem í október á síðasta ári voru handteknar fyrir árásir á karlmenn, systurnar Sophie Nhokwara, 26 ára, Netsai Nhokwara, 24 ára, og Rosemary Chakwizira, 28 ára. AFP

Susan Dhliwayo varð hissa er hún stöðvaði bíl sinn á hraðbraut í Simbabve nýverið til að bjóða hópi karla sem voru að húkka sér far upp í bíl sinn. Þegar þeir sáu að kona var á ferð neituðu þeir staðfastlega að setjast upp í bílinn. Ástæðan? Þeir óttuðust að verða nauðgað.

Óvenjulegar fréttir berast frá Afríkuríkinu Simbabve: Hópar kvenna taka upp í bíla sína karlkyns puttaferðalanga við hraðbrautirnar, byrla þeim kynörvandi lyf og nauðga þeim. Tilgangurinn er að safna sæði í smokka til trúarlegra athafna.

„Núna eru það karla sem hræðast konur,“ segir hinn 19 ára gamli Dhliwayo.

Fjölmiðlar í Simbabve flytja fréttir af því að fórnarlömbunum sé byrluð ólyfjan, þeim hótað með byssu eða hnífi og í að minnsta kosti einu tilfelli með lifandi, eitruðum snáki. Konurnar neyða þá til samfara og nota til þess kynörvandi lyf, nauðga þeim ítrekað og skilja þá svo eftir í vegkantinum.

Sæðissafnararnir komust fyrst í fréttirnar árið 2009 en hingað til hafa aðeins þrjár konur verið handteknar en í fórum þeirra fannst 31 smokkur með sæði í. Eru konurnar sakaðar um að hafa brotið á sautján körlum. Árásirnar hafa haldið áfram síðan.

„Við vitum ekki nákvæmlega hvað tilfellin eru mörg,“ segir talsmaður lögreglunnar, Wayne Bvudzijena. „Fórnarlömb árásanna hafa flestir verið puttaferðalangar sem hafa farið upp í einkabíla. Við hvetjum fólk til að notast við almenningssamgöngur.“

Safna sæði til trúarlegra athafna

Ekki er fullvíst til hvers konurnar safna sæðinu en þó er talið líklegast að það sé notað við trúarlegar athafnir tengdar þjóðtrúnni „juju“ sem tengist svartagaldri. Á sæðið þá að færa fólki gæfu, auka velgengni og koma í veg fyrir að upp komist um glæpi.

Þá er ekki heldur vitað með vissu hvers vegna sæðissafnararnir ráðast eingöngu á ókunnuga að því er virðist.

„Þetta mál er allt með miklum ólíkindum,“ segir félagsfræðingurinn Watch Ruparanganda við háskólann í Simbabve. Hann telur að viðskipti með sæði eigi sér stað. „Þetta er í raun ráðgáta þótt við þykjumst vissir um að sæðið sé notað í trúarlegum athöfnum.“

Ruparanganda segir það hafa komið sér á óvart er hann uppgötvaði fyrir sjö árum að sæði væri orðið söluvara. Þessu komst hann að er hann vann að lokaritgerð sinni, m.a. með viðtölum við ungt fólk á götum borgarinnar Harare. Viðmælendur hans sögðu honum m.a. frá því að menn byðu þeim á hótel, gæfu þeim gjafir og áfengi. Þeim væri síðan boðið að hafa mök við vændiskonur og sagt að láta viðskiptamönnunum smokkinn í té að samförunum loknum.

„Það kom ljós að það eru viðskiptamenn á bak við þetta, einhverjir stórlaxar stjórna markaðnum og nota konurnar við verkið,“ segir Ruparanganda.

Einnig þekkt í Nígeríu

Fréttirnar í fjölmiðlum hafa ekki komið hinum 24 ára gamla Tende Marahu á óvart. Hann segir sögur af ungum körlum sem konur nálgast og bjóða þeim greiðslu fyrir kynlíf og sæði þeirra í smokki.

„Það er langt síðan þetta hófst allt saman,“ segir Marahu sem segist þó enn ekki hafa sjálfur tekið þátt í þessu en myndi glaður gera það fyrir pening.

Fréttir af sæðissöfnurum eru ekki bundnar við Simbabve því sambærileg mál hafa komið  upp í Nígeríu. Þar hefur komist upp um vændiskonur sem selja smokka með sæði í.

Samtök græðara í Simbabve, National Traditional Healers Association, fordæma athæfið.

„Við teljum þetta tengjast göldrum svo við erum alfarið á móti þessu,“ segir talsmaður samtakanna, George Kandiyero. „Fólk er virkilega hrætt vegna þessa. Þetta er töluvert áfall því yfirleitt er þessu öfugt farið, karlar nauðga konum en ekki konur körlum.“

Kandiyero telur að hugsanlega sé sæði ekki safnað meðal ástvina þar eð það gæti kallað ógæfu yfir sæðisgjafann er sæði hans er notað við athafnir tengdar „juju“. „Það er nú vandinn með „juju“, flestar athafnirnar miða að því að græða peninga og það geta verið neikvæðar aukaverkanir.“

Ofbeldi gegn konum fær ekki sömu athygli

Kvenréttindasamtök í Simbabve hafa gagnrýnt að athygli á nauðgunum hafi færst yfir á kvenkynsgerendur. Þær auglýstu nýverið í dagblöðum og kom þar m.a. fram að ofbeldisglæpir gegn konum fengju ekki jafnmikla athygli og slíkir glæpir gegn körlum. Ofbeldi gegn konum vekti ekki sömu viðbrögð.

Þrjár konur sem tengjast málinu hafa dregið að sér mikla athygli og sömuleiðis vakið mikla reiði meðal almennings. Mál kvennanna sem sakaðar eru um árásir á 17 karla fer líklega brátt fyrir dómstóla. Þær hafa fengið morðhótanir. Einn karl var einnig handtekinn vegna árásanna.

Engin lög í Simbabve ná yfir nauðganir kvenna á körlum en þær eiga yfir höfði sér ákærur vegna „ósæmilegra árása“ á karlana sautján.

Dumisani Mthombeni, lögmaður tveggja kvennanna og karlsins sem var handtekinn, gagnrýnir að nú, fimm mánuðum eftir handtöku þeirra, séu niðurstöður úr DNA-prófum enn ekki komnar, engin vitni hafi verið að meintum árásum en þó hafi saksóknari haldið því fram í sjónvarpi að konurnar væru nauðgarar.

„Við höfum ekki fengið nein gögn í hendur,“ segir Mthombeni. „Við teljum að saksóknarinn vilji ekki að málið endi fyrir dómstólum þar sem hann hefur látið handtaka rangt fólk.“ 

Málið hefur vakið ýmsar tilfinningar og sumir hafa gert grín að því. Í dagblaði einu teiknaði skopteiknari t.d. nýlega nakinn karlkyns puttaferðalang sem vonaði að kona myndi stoppa fyrir sér.

En fólk er einnig hrætt.

„Auðvitað  erum við hræddir,“ segir 26 ára gamall puttaferðalangur á hraðbrautinni við Harare. Hann segist aldrei ætla að þiggja far í bíl með konu.

„Þótt hún sé gömul, þá getum við það ekki.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert