Breivik er sakhæfur

Anders Behring Breivik.
Anders Behring Breivik. Reuters

Norski fjöldamorðinginn Anders Behring Breivik, sem myrti 77 manns þann 22. júlí í fyrra, hefur verið úrskurðaður sakhæfur og gæti því verið dæmdur til refsivistar. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem héraðsdómurinn í Ósló sendi frá sér í morgun.

„Niðurstaða sálfræðimats er að hinn ákærði, Anders Behring Breivik, var ekki truflaður á geði þegar hann framdi glæp sinn þann 22. júlí 2011. Í því felst að hann er metinn hafa verið  ábyrgur gerða sinna á þeim tíma,“ segir í tilkynningunni sem birt er á vefsíðu norska blaðsins VG.

Áður hafði Brevik verið metinn ósakhæfur af tveimur sálfræðingum, þeim Torgeir Husby og Synne Sørheim, en þau töldu að Breivik væri með geðklofa og ofsóknaræði. Sú niðurstaða var nokkuð umdeild og leiddi til háværrar opinberrar umræðu í Noregi. Því var ákveðið að fá aðra sálfræðinga, Agnar Aspaas og Terje Tørrissen, til að meta andlegt ástand Breiviks og hófst sú vinna um miðjan janúar.

„Þetta er í samræmi við það sem búist var við. Núna er það undir dómstólunum komið hvað tekur við,“ segir réttarsálfræðingurinn Henning Værøy í samtali við VG og bætir við að það þurfi að rannsaka hvernig á því standi að sálfræðingarnir hafi komist að svo ólíkum niðurstöðum.

Réttarhöldin yfir Anders Behring Breivik hefjast næstkomandi mánudag, þann 16. apríl. Dómari í máli hans verður nú að skera úr um hvort hann sé sakhæfur eða ekki. „Við verðum að bera saman þessar tvær skýrslur og sjá hvað ber á milli,“ segir Svein Holden, ríkissaksóknari í samtali við VG.

Frétt VG



Útey, þar sem Anders Behring Breivik framdi voðaverk sín þann …
Útey, þar sem Anders Behring Breivik framdi voðaverk sín þann 22. júlí 2011. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert