Breivik kallaði sig Sigurð krossfara

Úr dómssal í héraðsdómi Óslóar í morgun.
Úr dómssal í héraðsdómi Óslóar í morgun. Reuters

Yfirheyrslur yfir norska fjöldamorðingjanum Anders Behring Breivik halda áfram. Inga Bejer Engh saksóknari spyr hann um tengsl hann við erlenda þjóðernissinna og fundi hans með þeim. Breivik kallaði sig Sigurð krossfara í musterisreglu þar sem hann var félagi.

Breivik leggur áherslu á að hann vilji ekki að framburður sinn verði til þess að varpa sök á viðkomandi og vill því ekki gefa upp nein nöfn. Engh spurði hann um fund sem hann átti í London, þar sem Breivik var einn af tólf stofnfélögum musterisreglu.

Harald Stanghelle, stjórnmálaritstjóri hjá norska blaðinu Aftenposten sagði við ríkissjónvarpið NRK að Breivik væri greinilega orðinn verulega pirraður á spurningum saksóknara, sem gengur býsna hart fram.  Breivik virðist hræddur um að verða tvísaga og forðast því að svara spurningum.

Hann var beðinn um að lýsa þeim sem voru með honum á stofnfundinum og svaraði því til að hann hefði gert það skriflega. Það var lesið upp og þar var þeim lýst sem gáfuðustu stjórnmálamönnum og herskáu þjóðernissinnum Evrópu. 

Í framhaldinu spyr Engh Breivik um „breska mentorinn hans“ en í yfirheyrslum yfir honum kom fram að hann hefði notið leiðsagnar Breta nokkurs að nafni Richard. Breivik talar um hvað í því felist að vera riddari og segist telja að það sé að vera sterkur einstaklingur. Fullkominn riddari þurfi að geta framkvæmt aðgerð án aðstoðar annarra.

„Ert þú slíkur fullkominn riddari?“ spyr Engh. „Ég hef ekki kallað sjálfan mig það en ég hef reynt að haga mér sem slíkur.“ svarar Breivik.

Síðan var hann spurður um dulnefnið „Sigurður krossfari“ og hann sagðist að hafa kallað sig það á fundum musterisreglunnar eftir Sigurði Magnússyni, Noregskonungi og einvaldi sem að hans mati sé einn mikilvægasti leiðtogi Noregs.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert