Banna einkennismerki mótorhjólagengja

Frá Sydney í Ástralíu.
Frá Sydney í Ástralíu. Ljósmynd/John O'Neill

Yfirvöld í Sydney í Ástralíu hafa frá og með deginum í dag bannað fólki að ganga um með einkennismerki mótorhjólagengja í næturklúbbahverfi borgarinnar í kjölfar vaxandi grófs ofbeldis sem rakið er til átaka á milli slíkra gengja. Yfirleitt er þá um að ræða skotárásir á meðlimi í öðrum gengjum.

Fram kemur í frétt AFP að forsætisráðherra New South Wales í Ástralíu, Barry O'Farrell, hafi nýverið hleypt af stokkunum átaki sem ætlað er að stemma stigum við ofbeldisverkum mótorhjólagengja.

„Þetta snýst um að senda skýr skilaboð um að þó fólk klæðist einkennismerkjum mótorhjólagengjanna þá er það ekki hafið yfir lögin,“ sagði O'Farrell og bætti því við að merkin gerðu viðkomandi einstaklinga ekki að ofurhetjum sem þyrftu ekki að fara að lögum.

Haft er eftir forsætisráðherranum að 58 staðir í næturklúbbahverfinu Kings Cross myndu banna það að fólk bæru einkennismerki gengjanna innan þeirra en 23 slík gengi er að finna í borginni.

Yfirvöld telja að Hell's Angels og Nomads séu einkum á bak við þann fjölda ofbeldisverka sem framin hafa verið á undanförnum mánuðum og rakin eru til átaka á milli mótorhjólagengja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert