Sarkozy biðst afsökunar

Forseti Frakklands, Nicolas Sarkozy, notaði tækifærið í dag, einungis tveimur dögum fyrir kjördag, að biðja frönsku þjóðina afsökunar á þeim mistökum sem hann hefði gert undanfarin fimm ár í embætti.

Skoðanakannanir benda til þess að  helsti keppinautur hans, Francois Hollande, frambjóðandi Sósíalistaflokksins, fari með sigur af hólmi, bæði í fyrri umferðinni á sunnudag og í þeirri seinni sem fer fram hinn 6. maí nk.

Sarkozy ræddi við kjósendur í Nice í Suður-Frakklandi í dag á meðan Hollande ræddi við kjósendur í norðri, Ardennes-héraði. 

Sarkozy sagði í útvarpsviðtali í dag að kannski hefðu það verið mistök af hans hálfu í upphafi kjörtímabilsins að hafa ekki haft nægan skilning á þeim hefðum og skyldum sem fylgja forsetaembættinu. Þessu vilji hann biðjast afsökunar á og heitir því að hann muni ekki endurtaka fyrri mistök. „Nú þekki ég starfið.“

Hollande var fljótur að grípa tækifærið til að hnýta í Sarkozy og sagði að afsökunarbeiðnin hafi komið of seint.

Samkvæmt skoðanakönnunum sem birtar voru í dag mun Hollande fá 28% atkvæða í fyrri umferðinni á meðan Sarkozy er með 26,4% atkvæða. Skoðanakannanir benda síðan til þess að Hollande fái 55,7% í seinni umferðinni.

Marine le Pen, frambjóðanda Þjóðarfylkingarinnar, er með 15,75% í fyrri umferðinni, Jean-Luc Melenchon, frambjóðandi Vinstri fylkingarinnar, sem nýtur stuðnings kommúnista, er með 13,75% og miðjumaðurinn Francois Bayrou með 10,1%.

Nicolas Sarkozy, ávarpaði stuðningsmenn sína á Concorde torginu í París …
Nicolas Sarkozy, ávarpaði stuðningsmenn sína á Concorde torginu í París um síðustu helgi. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert