Hollande 54%-Sarkozy 46%

Francois Hollande, frambjóðandi sósíalista, fær 54% atkvæða í seinni umferðinni og Nicolas Sarkozy, forseti Frakklands, fær 46% ef marka má skoðanakönnun sem var birt nú í kvöld í Frakklandi.

Fyrri umferðin fór fram í dag og samkvæmt fyrstu tölum fékk Hollande flest atkvæði, 28-29%, en Sarkozy er með 25,5-27%.

Sarkozy skoraði á Hollande í kvöld  að taka þátt í þremur opinberum kappræðum fyrir kosningarnar 6. maí nk. Hollande hefur hafnað áskorun Sarkozy, sem er þekktur ræðuskörungur.

Ef Hollande verður kjörinn forseti verður hann fyrsti vinstri sinnaði forseti Frakklands frá því  Francois Mitterrand var forseti en hann var við völd 1981-1995.

Ef Sarkozy tapar verður hann fyrsti sitjandi forseti Frakklands til þess að tapa forsetakosningum frá því  Valery Giscard d'Estaing tapaði fyrir Mitterand árið 1981.

Jean-Luc Melenchon, frambjóðandi Vinstri fylkingarinnar, hefur þegar hvatt kjósendur sína til þess að kjósa Hollande í seinni umferðinni. En það mun væntanlega skipta mestu hvað kjósendur Marine Le Pen, frambjóðanda Þjóðfylkingarinnar, gera því hún fékk um 20% í fyrri umferðinni sem er mesta fylgi sem flokkurinn hefur fengið.

Nicolas Sarkozy, forseti Frakklands og Francois Hollande, frambjóðandi sósíalista
Nicolas Sarkozy, forseti Frakklands og Francois Hollande, frambjóðandi sósíalista AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert