Merkel vill að Frakkar standi við gerða samninga

Angela Merkel, kanslari Þýskalands.
Angela Merkel, kanslari Þýskalands. Reuters

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, hefur hvatt ríki Evrópu til að standa við gerða samninga varðandi leiðir til að leysa evruvandann og þær skuldbindingar er varða framtíð Afganistans, í ljósi þeirra pólitísku breytinga sem hafa orðið í Frakklandi.

Merkel mun funda með Francois Hollande, nýkjörnum Frakklandsforseta, nk. þriðjudag. Hún hvatti önnur ríki til að sporna gegn skuldasöfnun og að ríkin standi við þá ákvörðun að kalla hermenn sína heim frá Afganistan árið 2014.

Talið er að málin geti leitt til átaka milli hennar og Hollade, sem mun fljúga til Berlínar skömmu eftir að hafa svarið embættiseið sem forseti. Alþjóðasamfélagið þrýstir mjög á Frakka og Þjóðverja að ríkin standi þétt saman, sem tvö af stærstu hagkerfum Evrópu.

Merkel sagði á þýska þinginu í dag að aukin skuldasöfnun muni aðeins valda enn meiri vanda á evrusvæðinu. Hart er tekist á um það í álfunni hvort menn eigi að einblína á aðgerðir til að efla hagkerfin eða draga úr fjárlagahalla.

„Vöxtur sem byggist á lántökum mun færa okkur á upphafspunkt kreppunnar og þar af leiðandi munum við ekki fara þá leið,“ sagði kanslarinn og uppskar lófaklapp þingmanna. Merkel gerði grein fyrir afstöðu Þýskalands fyrir leiðtogafund G8-ríkjanna sem fram fer í Bandaríkjunum dagana 18. til 19. maí.

Hollande hefur sagt að aðhaldsaðgerðir séu ekki lengur eini valmöguleiki Evrópu. Hann vill grípa til aðgerða til að auka hagvöxt í stað þess að herða tökin yfir ríkisfjármálum Evrópuríkjanna, líkt og Þýskaland leggur til að 25 ríki ESB af 27 hafa lagt blessun sína yfir.

Frá því Hollande náði kjöri hafa þýsk stjórnvöld ítrekað að ríkin eigi að standa við gerða samninga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert