Fimm börn létust í eldsvoða

Fimm börn létust í eldsvoða á Derby-skíri í Bretlandi í nótt. Sjötta barnið og tveir fullorðnir einstaklingar voru fluttir á sjúkrahús eftir að eldur kom upp í húsi í borginni Allenton á fjórða tímanum í nótt.

Börnin sem létust eru á aldrinum fimm og tíu ára. Barnið sem var flutt á sjúkrahús er þrettán ára gamalt og er í lífshættu samkvæmt frétt BBC.

Sky-fréttastofan segir að kona hafi verið handtekinn grunuð um að hafa kveikt í húsinu.

Að sögn lögreglu voru börnin öll sofandi á efri hæð hússins er eldurinn braust út. Foreldrar þeirra voru sofandi á neðri hæðinni en faðirinn hljóp upp og reyndi að bjarga börnunum, segir í frétt BBC, sem segir að konan, sem er tæplega þrítug, hafi verið handtekin annars staðar í borginni.

Nágranni fjölskyldunnar, Joe Peel, segist hafa verið sofandi þegar hundurinn hans vakti hann og þegar hann leit út um gluggann sá hann húsið í ljósum logum. „Ég greip símann minn og reyndi að klæða mig á sama tíma og ég hringdi í slökkviliðið. Ég hljóp út úr húsinu öskrandi og reyndi að vekja nágrannann,“ segir Peel í samtali við BBC. Hann segist hafa heyrt í manninum en ekki getað komist inn í húsið þar sem það stóð í björtu báli. Þetta var skelfilegt, bætir Peel við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert