Andvígur hjónabandi samkynhneigðra

Mitt Romney.
Mitt Romney. Reuters

Mitt Romney, forsetaframbjóðandi Repúblikanaflokksins í Bandaríkjunum, lýsti í dag yfir andstöðu sinni við að samkynhneigðir gætu gengið í hjónaband í Bandaríkjunum í ávarpi sínu í kristnum háskóla.

Barack Obama forseti lýsti fyrir þremur dögum yfir stuðningi sínum við hjónaband samkynhneigðra. Romney sagði hins vegar í dag að „fjölskyldan væri hornsteinn bandarískrar menningar“.

„Grundvallarstoðir samfélagsins verða ávallt í brennidepli lýðræðislegrar umræðu,“ sagði Romney í ávarpi sínu til útskriftarnema Liberty-háskólans. „Hjónabandið er nú til umræðu. Hjónaband er samband eins manns og einnar konu,“ sagði hann alvarlegur í ávarpinu og mikil fagnaðarlæti brutust út meðal útskriftarnemanna. Liberty-háskólinn er stærsti kristni háskólinn í Bandaríkjunum.

Romney, sem vísaði ekki beint til samkynhneigðra í ávarpi sínu, hefur áður sagt að hann sé andvígur því að samkynhneigðir geti gengið í hjónaband, en að samkynhneigð pör eigi hins vegar að njóta tiltekinna réttinda á borð við að geta ættleitt börn.

Romney kaus ennfremur að leggja áherslu á sérstöðu sína með því að hampa gildum fjölskyldulífs. Hann lagði áherslu á trú og skuldbindingu í ræðu sinni og vísaði ítrekað til Guðs.

„Fjarlægið fjölskyldugildin, eða takið þau sem sjálfsagðan hlut, og þá getur margt farið úrskeiðis í lífi ykkar. Varðveitið þau og treystið, og þá getur svo margt farið vel,“ sagði Romney.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert