Lauk krabbameinsmeðferð á Kúbu

Hugo Chavez, forseti Venesúela, var þakklátur við komuna til heimalandsins.
Hugo Chavez, forseti Venesúela, var þakklátur við komuna til heimalandsins. AFP

Hugo Chavez, forseti Venesúela, hefur snúið aftur heim frá Kúbu eftir að hafa gengist undir krabbameinsmeðferð þar í landi. Forsetinn segir að meðferðinni sé nú lokið að hún hafi heppnast vel.

Chavez faðmaði ráðherra á flugbrautinni við komuna til Caracas og tók lagið fyrir framan sjónvarpsmyndavélar, segir á vef BBC. Hann hefur alls verið á Kúbu í 11 daga.

„Ég lauk nýverið velheppnaðri geislameðferð, sem læknateymið hafði skipulagt,“ sagði forsetinn sem hefur verið við völd frá árinu 1999.

Hann hyggst sækjast eftir endurkjöri í forsetakosningunum sem fram fara í október nk.

„Ég er bjartsýnn á að meðferðin skili þeim áhrifum sem við vonuðumst eftir. Ég bið guð ávallt um aðstoð og að veita okkur það kraftaverk sem lífið er svo við getum haldið áfram að þjóna,“ sagði forsetinn enn fremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert