Ayrault nýr forsætisráðherra

Jean-Marc Ayrault var glaður í bragði er ljósmyndarar náðu mynd …
Jean-Marc Ayrault var glaður í bragði er ljósmyndarar náðu mynd af honum fyrr í dag. AFP

Forseti Frakklands, François Hollande, tilkynnti nú fyrir skömmu að borgarstjórinn í Nantes, Jean-Marc Ayrault, verði næsti forsætisráðherra landsins. Ayrault er einnig þingflokksformaður Sósíalistaflokksins á franska þinginu.

Er það nú í hans höndum að skipa nýja ríkisstjórn í landinu en eins og fram hefur komið á mbl.is í dag tók Hollande við embætti forseta í dag af Nicolas Sarkozy sem hefur gegnt embættinu í fimm ár.

Ayrault, sem er 62 ára að aldri, mun væntanlega greina frá því á morgun hverjir munu sitja í ríkisstjórninni en fyrsti ríkisstjórnarfundurinn undir hans stjórn verður væntanlega haldinn á fimmtudag.

Hann, líkt og Hollande, hefur aldrei setið í ríkisstjórn en þeir tveir hafa unnið náið saman í mörg ár, samkvæmt AFP fréttastofunni. Hann starfaði meðal annars fyrir Hollande í kosningabaráttunni.

Ayrault var kjörinn bæjarstjóri í Saint-Herblain árið 1977 en hann var kosinn borgarstjóri Nantes árið 1989. Eins hefur hann gegnt þingmennsku frá árinu 1986. Áður en hann hóf pólitísk afskipti starfaði hann sem þýskukennari.

Árið 1997, eftir að hann tók við þingflokksformennsku, Ayrault dæmdur fyrir að hafa gert samning um prentun fyrir borgaryfirvöld í Nantes við kaupsýslumann sem tengist Sósíalistaflokknum. Fékk hann sex mánaða skilorðsbundinn dóm og gert að greiða 30 þúsund franka, 735 þúsund krónur, í sekt en dómurinn var þurrkaður út af skrá árið 2007, tíu árum eftir að dómurinn var kveðinn upp.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert