Jafnrétti í nýrri ríkisstjórn

Forsætisráðherra Frakklands, Jean-Marc Ayrault kynnti nýja ríkisstjórn landsins í dag
Forsætisráðherra Frakklands, Jean-Marc Ayrault kynnti nýja ríkisstjórn landsins í dag AFP

Jafnt kynjahlutfall er í nýrri ríkisstjórn Frakklands, 17 konur og 17 karlar. Þrátt fyrir það eru karlar í mörgum af helstu ráðuneytunum. Formaður Sósíalistaflokksins, Martine Aubry, hafnaði ráðherrasæti þrátt fyrir að hafa verið boðið veigamikið ráðuneyti, samkvæmt frétt BBC.

Hefur breska ríkisútvarpið eftir heimildum að hún hafi ekki séð neinn tilgang í því að setjast í ríkisstjórn nema sem forsætisráðherra. Það er hins vegar Jean-Marc Ayrault Ayrault sem fékk það hlutverk í gær, sama dag og François Hollande sór embættiseið forseta Frakklands.

Ráðherrum er fjölgað frá síðustu ríkisstjórn undir forsæti François Fillon en í þeirri ríkisstjórn var hlutfall kvenna 16%.

Laurent Fabius, 65 ára, verður utanríkisráðherra en hann hefur meðal annars gegnt embætti forsætisráðherra og fjármálaráðherra. Hann blandaðist inn í blóðgjafahneykslið á níunda áratugnum þegar mörg hundruð manns var gefið HIV-smitað blóð. Var hann ákærður ásamt tveimur öðrum ráðherrum árið 1999 en Fabius var sýknaður af ásökunum um morð af gáleysi, en ráðherrarnir sakfelldir. Líkt og fram kom í fréttaskýringu Ágústs Ásgeirssonar um frönsku forsetakosningarnar fyrr í mánuðinum þótti líklegt að Fabius fengi embætti utanríkisráðherra í ríkisstjórn Hollande.

Pierre Moscovici ,kosningastjóri Hollande, verður fjármálaráðherra. Jean-Yves Le Drian, varnarmálaráðherra, Manuel Valls, innanríkisráðherra. Christiane Taubira verður dómsmálaráðherra og Aurelie Filippetti verður menningarmálaráðherra.

Fyrsti ríkisstjórnarfundur nýrrar ríkisstjórnar verður haldinn klukkan 13 á morgun.

Hér er hægt að sjá nöfn allra ráðherra

AFP fréttastofan segir að með því að ná því markmiði sem Hollande hafði sett sér í kosningabaráttunni, að jafn margar konur og karlar myndu gegna starfi ráðherra bætist Frakkland í hóp nokkurra Evrópuríkja sem þegar hafi náð því markmiði.

Nefnir AFP fréttastofan Ísland þar fyrst en fimm af níu ráðherrum eru konur (55,5%) og þar af er forsætisráðherrann kona.

Í Svíþjóð eru þrettán af 24 ráðherrum konur, (54%).

Í Noregi eru 10 af 20 ráðherrum konum, Sviss eru fjórar konur af átta ráðherrum konum þannig að þau ríki eru með jafnt kynjahlutfall líkt og Frakkland nú.

Elysee höll í París
Elysee höll í París AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert