Nektarmynd af forsætisráðherra vekur athygli

Stephen Harper var fullklæddur er hann lenti á Dulles flugvellinum …
Stephen Harper var fullklæddur er hann lenti á Dulles flugvellinum í Washington í kvöld AFP

Málverk af forsætisráðherra Kanada, Stephen Harper, nöktum hefur vakið töluverða athygli í Kanada undanfarna daga en verkið er til sýnis opinberlega.

Um er að ræða olíumálverk eftir Margaret Sutherland og nefnist það Emperor Haute Couture. Á málverkinu sést Harper halla sér makindalega aftur umkringdur höfuðlausu fólki í jakkafötum og með hund við fætur sér.

Þingmenn á kanadíska þinginu hafa skiptar skoðanir á verkinu. „Ég veit ekki hvort Kanadamenn þurfa endilega að sjá þetta. Ég þurfti svo sannarlega ekki á því að halda,“ segir Nathan Cullen þingmaður við Nýrra demókrata sem er stjórnarandstöðuflokkur á kanadíska þinginu.

Scott Brison, þingmaður frjálslyndra segir að verkið sýni að forsætisráðherrann, sem er íhaldsmaður, hafi lítið að fela. 

Verkið er til sýnis á bókasafni í Ontario sem hluti af listasamkeppni. Verður verkið til sýnis út mánuðinn.

Sutherland segir í viðtali við QMI fréttastofuna að málverkið sé háðsdeila innblásin af verki Edouard Manet, Olympiu frá árinu 1863. Harper sat ekki fyrir hjá listakonunni. 

Talsmaður Harpers segir í Twitter færslu að verkið hafi vakið litla hrifningu á skrifstofu forsætisráðherra enda viti allir að Harper er meira fyrir ketti en hunda. 

Hér er hægt að skoða málverkið

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka