Væri upphafið að endalokum evrunnar

Írski þingmaðurinn Richard Boyd Barrett.
Írski þingmaðurinn Richard Boyd Barrett. Ljósmynd/Richard Boyd Barrett

Evrópusambandið mun halda áfram að styðja Írland og veita því neyðaraðstoð ef á þarf að halda jafnvel þó írskir kjósendur hafna fjármálastöðugleikasáttmála sambandsins. Þetta er haft eftir írska þingmanninum Richard Boyd Barrett á fréttavef dagblaðsins Belfast Telegraph en hann hefur barist gegn samþykkt sáttmálans.

Barrett vísar í því sambandi til ummæla forystumanna innan Evrópusambandsins að undanförnu um að allt verði gert til þess að tryggja að Grikkland verði áfram á evrusvæðinu. Ástæða þeirra sé sú að óttast sé um afdrif svæðisins ef Grikkir yfirgefa það. Fyrir vikið sé ljóst að Írum verði ekki gert að segja skilið við það.

Írskir kjósendur kjósa um sáttmálann 31. maí næstkomandi eða eftir rúma viku en ríkisstjórn Írlands og aðrir stuðningsmenn hans hafa sagt að samþykkt hans sé forsenda þess að Evrópusambandið veiti landinu áfram stuðning og nýjan efnahagslegan björgunarpakka ef þess gerir þörf.

Barrett segir ljóst að ef Grikkland yfirgefi evrusvæðið muni það hafa í för með sér mikið áfall fyrir allt fjármálakerfi Evrópusambandsins og svo kunni að fara að það jafni sig aldrei af því. Næst gæti röðin komið að Spáni og þeir sem myndu tapa mest á þessu væru bankarnir. Allt þetta sýndi að Írum væri óhætt að hafna sáttmálanum. Hótanir um annað væru innantómar.

„Það er einfaldlega útilokað að Evrópusambandið hætti að veita Írlandi fjárhagsstuðning þó að niðurstaðan verði nei vegna þess að það veit að slíkt myndi verða upphafi að endalokum evrunnar,“ sagði Barrett.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert