Munkar kveiktu í sér í Lhasa

Yfirráðum Kínverja í Tíbet mótmælt.
Yfirráðum Kínverja í Tíbet mótmælt. AFP

Tveir Tíbetar kveiktu í sér fyrir utan hof í höfuðborginni Lhasa í gær. Annar þeirra lést en hinn er mikið slasaður. Á fjórða tug Tíbeta hefur kveikt í sér á innan við ári til að mótmæla hernámi Kínverja á Tíbet.

Að sögn fréttamanns hjá Radio Free Asia voru mennirnir munkar sem tóku þátt í mótmælum gegn hernáminu fyrir utan Jokhang-hofið. Flestir þeirra sem hafa kveikt í sér eru búddamunkar og -nunnur.

Að sögn kínversku fréttastofunnar Xinhua náðu lögreglumenn að slökkva eldana á örfáum mínútum en í fréttaflutningi kom hvergi fram að um væri að ræða munka.

Þetta er í fyrsta sinn sem menn kveikja í sér í Lhasa en þar hefur verið afar ströng öryggisgæsla eftir að átök brutust út á milli Tíbeta og aðfluttra Kínverja árið 2008.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert