Mikill meirihluti íhaldsmanna vill úr ESB

David Cameron, forsætisráðherra Bretlands og leiðtogi breska Íhaldsflokksins.
David Cameron, forsætisráðherra Bretlands og leiðtogi breska Íhaldsflokksins. Reuters

Sjö af hverjum tíu meðlimum í breska Íhaldsflokknum myndu greiða atkvæði með því að yfirgefa Evrópusambandið og 83% þeirra vilja að flokkurinn heiti því að boða til þjóðaratkvæðagreiðslu um veru Bretlands í sambandinu í stefnuskrá sinn fyrir næstu þingkosningar samkvæmt niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar sem birtar eru í dag.

Hins vegar vilja 23% félagsmanna Íhaldsflokksins vera áfram í ESB og 17% vilja að í stað þjóðaratkvæðis um aðild Bretlands að sambandinu verði freistað þess að endursemja um skilmála aðildarinnar með það fyrir augum að endurheimta völd yfir mikilvægum málaflokkum sem framseld hafa verið til stofnana ESB.

Þá telur rúmur þriðjungur meðlima Íhaldsflokksins, eða 36%, að Bretland eigi eftir að segja skilið við ESB á næstu tíu árum samkvæmt könnuninni sem gerð var fyrir bresku sjónvarpsstöðina Channel 4. 38% telja að Bretland verði áfram hluti af sambandinu en með breyttum aðildarskilmálum á meðan 26% telja að tengslin við ESB haldast óbreytt.

Fram kemur á fréttavefnum Msn.com að niðurstöðurnar komi á sama tíma og kröfur um þjóðaratkvæði um veru Bretlands í ESB gerast æ háværari og segir að þær muni setja aukna pressu á forystu Íhaldsflokksins sem hafi lýst því yfir að hún styðji áframhaldandi veru Breta í sambandinu.

Frétt Msn.com

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert