Kona drepin af úlfum í Svíþjóð

Úlfar drápu starfsmann dýragarðs í Svíþjóð í dag.
Úlfar drápu starfsmann dýragarðs í Svíþjóð í dag.

Úlfar réðust á og drápu starfskonu í dýragarði í Kolmården í Svíþjóð í dag. Konan var inni í úlfabúrinu, rétt áður en gestir garðsins fengu að fóðra úlfana. Lögreglan komst ekki að konunni strax því úlfarnir stóðu yfir konunni og ekki var óhætt að fara inn í búrið, segir í frétt sænska ríkissjónvarpsins.

Dýragarðurinn í Kolmården er stærsti dýragarður Svíþjóðar og einn sá stærsti í Norður-Evrópu.

Lögreglumenn, sjúkraflutningamenn og starfsmenn dýragarðsins mynduðu þéttan hóp, til að ógna úlfunum, og nálguðust þá þar sem stóðu yfir konunni. Álengdar stóð vopnaður lögreglumaður tilbúinn að skjóta úlfana. Aðgerðin heppnaðist og þeir náðu konunni, sem var mjög illa leikin, án þess að þurfa að hleypa af skoti.

Konan hafði staðið ein andspænis úlfahópnum en ekki er þó vitað hvers vegna þeir réðust til atlögu. Það mun ekki vera óvenjulegt að starfsmenn dýragarðsins fari einir inn í úlfabúrið t.d. til að mata þá. Venjulega eru úlfar ekki árásargjarnir og eiga það frekar til að forðast fólk. Engin vitni urðu að árásinni.

Forsvarsmenn dýragarðsins hafa sett saman viðbragðshóp sem mun fara yfir og rannsaka hvað fór úrskeiðis.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert