Vill banna franskt vændi

Najat Vallaud-Belkacem, ráðherra kvenréttindamála í frönsku ríkisstjórninni.
Najat Vallaud-Belkacem, ráðherra kvenréttindamála í frönsku ríkisstjórninni. Ljósmynd/Florent Pessaud

Ráðherra kvenréttindamála í frönsku ríkisstjórninni, Najat Vallaud-Belkacem, vill að vændi verði ekki lengur leyfilegt í Frakklandi og styður það að sett verði lög þar sem einungis þeir sem kaupa vændi verði sóttir til saka.

„Spurningin er ekki hvort við viljum binda enda á vændi, svarið við því er já. Stóra spurningin er hvernig við ætlum að gera það,“ sagði ráðherrann í samtali við franska vikublaðið Le JDD í gær, sunnudag.

Fram kemur á fréttavefnum Thelocal.fr að í Frakklandi sé vændi löglegt. Hins vegar er það brot á lögum að selja sig á götum úti og varðar það tveggja mánaða fangelsi og 3.750 evra sekt (um 600 þúsund krónur).

Franskir sósíalistar hafa gagnrýnt það að glæpsamlegt sé að stunda vændi á götum úti. Það þýddi að þeir sem stunduðu vændi feldu frekar iðju sína og þeir gætu þá ekki leitað á náðir heilbrigðiskerfisins.

Þá segir í fréttinni að talið sé að um 18-20 þúsund manns selji blíðu sína á götum franskra bæja og borga þrátt fyrir bannið. Ennfremur kemur fram að samkvæmt skýrslu fyrir franska þingið frá 2011 séu 80% þeirra sem stunda vændi í Frakklandi útlendingar sem eru fórnarlömb mansals.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert