Mega ekki giftast af ást

Bæjarráð í þorpi í suðurhluta Indlands hefur bannað fólki að giftast af ást og konum undir fertugu að versla einar og nota farsíma á almannafæri. Bannið hefur ekkert lagalegt gildi en er engu að síður talið hafa mikil áhrif. Lögreglan er að rannsaka málið.

Flestir íbúar þorpsins Asara í Uttar Pradesh-héraði eru múslímar. Í reglum sem bæjarráðið hefur samþykkt er einnig kveðið á um að konur skuli hylja andlit sitt á almannafæri.

Innanríkisráðherra Indlands, P. Chidambaram, fordæmir reglurnar og segir þær ekki eiga heima í lýðræðissamfélagi. „Lögreglan verður að bregðast við öllum slíkum reglum. Ef einhver gripur til aðgerða gegn ungum körlum eða konum vegna ólöglegra reglna verður sá hinn sami handtekinn,“ segir ráðherrann.

Í bæjarráðum eins og því sem ræður ríkjum í þorpinu Asara sitja oft öldungar sem taldir eru veita andlega leiðsögn fyrir íbúana.

Þó að reglurnar hafi ekkert lagalegt gildi hafa þær gríðarlega mikil áhrif á hegðun íbúanna. Þær hafa m.a. verið notaðar til að réttlæta heiðursmorð á konum sem sagðar eru hafa kallað skömm yfir fjölskyldu sína.

Kvenréttindasamtök hafa foræmt reglurnar sem m.a. miða að því að banna konum að vera einar á almannafæri. Samtökin segja slíkt bann merki um mikla karlrembu sem grafi undan eðlilegum gildum samfélagsins. Aðrir hafa sagt reglurnar hreint út sagt hlægilegar enda marklausar með öllu.

Ungu fólki er einnig samkvæmt reglunum bannað að giftast af ást, en hjónabönd sem foreldrar brúðhjónanna ákveða fyrirfram og semja um eru upphafin. Bæjarráðið segir „ástar-hjónaböndin“ eyðileggjandi og til skammar. „Ástarhjónabönd eru mjög sársaukafull fyrir foreldrana, sérstaklega fjölskyldur stúlknanna. Slík hjónabönd draga úr virðingu fólksins,“ segir Sattar Ahmed, sem situr í bæjarráðinu.

Íbúar þorpsins eru sjálfir sagðir ánægðir með reglurnar sem þeir segja hjálpa til við að halda ungum stúlkum á beinu brautinni.

„Farsímar eru bölvun, sérstaklega fyrir stúlkur. Ég hefði verið enn ánægðari ef bæjarráðið hefði bannað stúlkum með öllu að nota farsíma,“ segir þorpsbúinn Tarun Chaudhary.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert