Rússar hafna refsiaðgerðum ESB

Mótmæli í Sýrlandi í dag.
Mótmæli í Sýrlandi í dag. Pierre Torres

Rússneska utanríkisráðuneytið tilkynnti í dag að Rússar myndu ekki hlýða nýjum refsiaðgerðum sem Evrópusambandið (ESB) hefur samþykkt gegn Sýrlandsstjórn. Meðal annars myndu þeir ekki leyfa að leitað yrði að vopnum í skipum sem sigla undir fána Rússlands.

„Við gerum ekki ráð fyrir því að taka neinn þátt í að framfylgja ákvörðunum Evrópusambandsins sem beint er gegn Sýrlandi,“ sagði Alexander Lúkasjevits, talsmaður utanríkisráðuneytisins. ESB samþykkti fyrr í vikunni auknar refsiaðgerðir gegn ríkisstjórn Bashar al-Assads, forseta Sýrlands. Meðal annars var samþykkt að reyna að treysta vopnasölubann á landið með því að skoða farm skipa og flugvéla sem grunað er að flytji vopn til landsins. 

Rússar fordæmdu refsiaðgerðir ESB á miðvikudaginn og sögðu þær jafngilda hafnbanni á Sýrland. Rússar reyndu fyrir mánuði síðan að senda þrjár árásarþyrlur og loftvarnarkerfi til landsins með skipi, en urðu að hætta við eftir að upp komst um áformin. Rússar segja að þyrlurnar hafi þegar tilheyrt Sýrlendingum samkvæmt samningi frá 2008 og að þær hafi einungis verið að koma aftur úr viðgerð. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert