Chen óskar eftir aðstoð Bandaríkjanna

Chen Guangcheng á blaðamannafundinum í dag.
Chen Guangcheng á blaðamannafundinum í dag. AFP

Chen Guangcheng, kínverskur andófsmaður sem flúði til Bandaríkjanna í maí síðastliðnum, hefur óskað eftir því að bandarísk stjórnvöld rannsaki mál hans og tryggi öryggi fjölskyldu hans sem er ennþá búsett í Kína.

Chen flúði á sínum tíma til Bandaríkjanna ásamt eiginkonu sinni og tveimur börnum en hann hefur þó miklar áhyggjur af þeim ættingjum sínum og vinum sem enn eru búsettir í Kína. Þá er frændi hans sagður hafa verið handtekinn af kínverskum yfirvöldum og ákærður fyrir manndráp í tengslum við flótta Chen.

„Kínverska ríkisstjórnin lofaði mér því sérstaklega að hún myndi rannsaka ítarlega þá kúgun og misnotkun sem ég varð fyrir í Shandong héraði,“ sagði Chen á blaðamannafundi og bætti við: „Ríkisstjórnin lofaði mér því einnig að hún myndi tryggja öryggi fjölskyldu minnar. Þremur mánuðum síðar hef ég hinsvegar ekki heyrt neinar fréttir af því hvernig þessari rannsókn miðar né hvort hún sé yfir höfuð hafin.“

Þingmenn beggja flokka, Repúblikana og Demókrata, hafa tekið undir kröfu Chen. „Við getum ekki þagað á meðan að verið er að brjóta gegn grundvallar mannréttindum fólks, við getum ekki þagað á meðan að vegið er að trúfrelsi, við getum ekki þagað um ámælisverða barneignastefnu Kína,“ sagði John Boehner, þingmaður Repúblikanaflokksins í fulltrúadeild Bandaríkjaþings og forseti þingsins.

Þá tók Nancy Pelosi, þingmaður Demókrataflokksins í fulltrúadeild Bandaríkjaþings, undir með Boehner. „Ég segi þetta ekki oft, herra forseti, en ég vil taka undir með ummælum þínum.“

Nánar má lesa um máli á vefsíðu BBC.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert