Eastwood skyggði á Romney

Fjölmiðlar í Bandaríkjunum hafa í allan dag velt sér upp úr ræðu sem Clint Eastwood flutti á flokksþingi Repúblikanaflokksins í gærkvöldi. Ræðan þótti ekki góð og mörgum finnst að Eastwood hafi skyggt á annars ágæta ræðu Mitt Romney.

Flokksþing stóru flokkanna í Bandaríkjunum eru jafnan vandlega undirbúin. Ræðumenn eru valdir með það að markmiði að reyna að styrkja flokkinn meðal kjósenda þar sem flokkurinn á undir högg að sækja. Menn eru með skrifaðar ræður sem margir taka þátt í að semja.

Romney beitti sér fyrir því að leynigestur mætti á þingið, en upplýst var í gær að hann væri enginn annar en bandaríski leikarinn og leikstjórinn Clint Eastwood.

Eastwood er orðinn 82 ára gamall og hann talaði blaðalaust á flokksþinginu. Honum voru ætlaðar fimm mínútur, en hann talaði í 12 mínútur. Flestir sem fjallað hafa um ræðuna eru sammála um að hún hafi ekki verið góð. Wolf Blitzer, fréttamaður á CNN, sagði að með ræðunni hefði honum orðið á hræðileg skyssa.

Eastwood beindi máli sínu að tómum stól sem átti að tákna forsetastólinn. Barack Obama forseti svaraði ræðunni með því að birta á Twitter mynd af sér í stólnum með orðunum: „Þessi stóll er upptekinn.“

Það versta við ræðuna er að ræða Romneys hefur að nokkru leyti fallið í skuggann af Eastwood. Repúblikanar hafa reynt að gera lítið úr málinu og benti á að andstæðingar Romneys hafi gagnrýnt hann fyrir að vera stífur og allt í kringum hann sé skipulagt. Ræða Eastwood sýni að þetta sé ekki rétt.

Áhorf á flokksþing Repúblikanaflokksins var minna í ár en árið 2008. Þá var John McCain nýbúinn að velja nær óþekkta komu sem varaforsetaefna, Söru Palin. Mikill áhugi var á ræðu hennar. Mun færri hlustuðu nú á ræðu Paul Ryan, varaforsetaefnis Romney.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert