Vilja banna fiskveiðar næsta áratuginn

Tímabundið bann við veiðum á fiskistofnum í efnahagslögsögu Evrópusambandsins gæti skilað sér í hagnaði upp á milljarða punda innan áratugar samkvæmt rannsóknarskýrslu sem breska hugveitan New Economics Foundation hefur sent frá sér. Fjallað er um þetta á fréttavef breska ríkisútvarpsins BBC.

Þar segir að það myndi borga sig til lengri tíma litið að greiða útgerðarmönnum fyrir að fara ekki á veiðar næstu tíu árin. Samtök skoskra sjómanna hafa hins vegar gagnrýnt skýrsluna harðlega og segja að ef ráðleggingum hennar yrði fylgt myndi það þýða hrun í greininni og að enginn hagnaður yrði vegna þeirra.

Ástand fiskstofna í lögsögu Evrópusambandsins hefur víða verið mjög bágborið um árabil og er mikill meirihluti þeirra ofveiddur samkvæmt skýrslum sem unnar hafa verið fyrir framkvæmdastjórn sambandsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert