Tólf létust í sjálfsvígsárás

AFP

Tólf létu lífið er kona sprengdi sig í loft upp í Kabúl, höfuðborg Afganistans, í dag. Er árásin rakin til kvikmyndar sem þykir gera lítið úr Múhameð spámanni. Er árásin í dag sú mannskæðasta síðan óeirðir brutust út í Líbíu og Egyptalandi hinn 11. september.

Alls hafa 30 látist í slíkum árásum undanfarna viku eða frá því að myndskeið úr myndinni Innocence of Muslims var sett inn á YouTube. Talið er að öfgafullir kristnir menn hafi gert myndina.

Þeir sem létust voru öryggisverðir og níu útlendingar en konan sprengdi sig upp á þjóðveginum að flugvellinum í Kabúl.

Uppreisnarhópurinn Hezb-i-Islami, sem er annar stærsti uppreisnarhópur Afganistans á eftir talibönum, hefur lýst yfir ábyrgð á árásinni.

Að sögn talsmanns hópsins, Zubair Sidiqi, var það kona að nafni Fatima sem sprengdi sig upp í árásinni en árásin var gerð vegna móðgunar við spámanninn. Afar sjaldgæft er að einhver lýsi yfir ábyrgð á sjálfsvígsárás í Afganistan og mjög sjaldgæft er í því landi að kona fremji slíkar árásir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert